Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Sjónvarpsgagnrýni
Úmísúmí Þættirnir Úmísúmí hafa verið sýndir á RÚV um árabil. Í stuttu máli eru þessir þættir vandræðalega lélegir.

Handritshöfundar virðast hafa svo ótrúlegan áhuga á formum, litum, og tölum, að það jaðrar við blæti.

Stöðugt er reynt að fá áhorfendur til að taka þátt í vitleysunni. Oftast með því að hrópa eitthvað, eða telja. Af einhverjum ástæðum er þó nánast alltaf talið afturábak.

Talsvert er sungið í þáttunum, en lögin eru svo léleg að þau kæmust ekki einu sinni í undankeppni Júróvision.

Söguþráðurinn er alltaf eins og þ.a.l. alltaf jafn lélegur, og ótrúverðugur. Einhver lendir í algjörlega minniháttar vandræðum, og „Lið Úmísúmí“ kemur til bjargar með því að leysa fáránlegar þrautir og fara í taugarnar á áhorfendum.

Ástæðan fyrir því að „Lið Úmísúmí“ er sett í gæsalappir er augljós. Réttari, og miklu betri þýðing, væri Úmísúmí liðið. Og það er margt athugavert við þýðingar í þessum þætti, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.

Enska orðið „snowflake“ er t.d. þýtt þráðbeint (eins og nafn þáttanna), og er í þáttunum talað um „snjóflögur“, í stað snjókorna.

Að enginn skuli kveikja á perunni er eiginlega alveg lygilegt. Stærsta sök á þýðandinn sjálfur, en hvað um þá sem tala inn á þættina? Þetta er algjörlega beisik. Snjóflaga? Nei takk!

Þýðandi þáttarins er reyndar svo latur, að hann nennir ekki einu sinni að þýða nöfn aðalpersónanna. Einn meðlimur liðsins heitir Géó! Af hverju ekki Georg? Nú eða bara Jóhannes?

Talsetning er vægast sagt hræðileg. Tveir krakkar og Felix Bergsson öskra á áhorfendur í 20 mínútur samfleytt. Raddbeytingin er fullkomlega óeðlileg, og með þeim hætti að það eina sem getur vakað fyrir þeim sem stjórna talsetningu, er að reyna að pirra áhorfendur sem allra mest.

Og eins og allt sem að ofan er talið sé ekki nóg, þá sýnir RÚV þættina alltaf í röngum hlutföllum. Þættirnir eru augljóslega framleiddir í 4:3, en sýndir í 16:9. Fyrir lesendur sem ekki skilja hvað hér er um rætt, þýðir þetta á mannamáli, að allir á skjánum verða litlir og feitir.

Þetta er semsagt allt óendanlega og óþolandi klént!

Efnistök: 0
Þrautir: 0
Þýðing: 0
Talsetning: 0
Samtals einkunn: 0

P.S. Sýningartími þáttanna er líka með öllu óskiljanlegur. Þættirnir eru sýndir eldsnemma um helgar, þegar allt venjulegt fólk er enn í fastavefni!

Eldhúsdagsdansinn


Fara efst á síðu