Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Það eina sem breytist er ártalið.


Tölvuspá Gys.is fyrir 2019 Hárnákvæm spá


Það kann að koma óreyndum lesendum á óvart, en árið 2019 verður nákvæmlega eins og 2018. Rétt eins og 2018 var nákvæmlega eins og 2017 og 2017 var nákvæmlega eins og 2016 og svo mætti lengi telja.

Á Íslandi breytist nefnilega aldrei neitt. Sennilega er það vegna þess að gamlir og fúlir karlpungar ráða hér öllu og þeir óttast ekkert meira en breytingar. Fyrir utan útlendinga, grænmetisætur og kaffidrykki með skrítnum nöfnum.

Það verða því sömu vonbrigðin og venjulega þegar handboltalandsliðinu gengur illa á heimsmeistaramótinu núna í janúar. Eins verða það gríðarleg vonbrigði þegar Ísland kemst ekki á úrslitakvöld Eurovision, enda verður þá hálf þjóðin búin að telja sér trú um að íslenska lagið sé frábært, þrátt fyrir að það sé ömurlegt.

Kristján Loftsson mun halda áfram að veiða hvali og áfram verður taprekstur af þeim veiðum. Við fáum ekki nýja stjórnarskrá, ekki gáfulegri málshætti í páskaeggin okkar og ekki nýtt barnaefni á RÚV (fyrir þá sem ekki vita þá er það allt endursýnt endalaust).

Talandi um RÚV: Gísli Marteinn verður áfram með þætti sína og fær til sín sömu gestina sem sitja í sömu sætunum að ræða sömu hlutina á sama hátt og í sömu röð. Gísla finnst allir gestirnir nákvæmlega jafn skemmtilegir og áður. Hann hrósar þeim nákvæmlega jafn mikið og hlær nákvæmlega eins að nákvæmlega sömu bröndurunum.

Atvinnurekendur í ferðaþjónustu og byggingargeiranum munu halda áfram að níðast á erlendu vinnuafli eins og þeir mögulega geta og skipta um kennitölu á tveggja mánaða fresti, á meðan þingmenn munu engu breyta til að koma í veg fyrir slíkt.

Ekki verður hægt að leysa húsnæðisvandann, þar sem byggingar á sáraeinföldum fátæklingabröggum kosta allt of mikið. Sérstaklega hin bráðnauðsynlegu strá sem þarf að gróðursetja í nágrenni þeirra.

Á hverjum einasta degi ársins mun fólk finna sér eitthvað til hneykslunar, en gleyma því daginn eftir. Sigmundur Davíð verður að sjálfsögðu í miðju alvöru hneykslismáls á árinu rétt eins og undanfarin ár. Hann mun þó ekki láta það á sig fá, enda um alþjóðlegt samsæri að ræða að hans mati.

Að sama skapi muna íslenskir stjórnmálamenn ekki læra að skammast sín á árinu. Þeir munu áfram karpa um allt milli himins og jarðar og gæta þess að vera ekki einu sinni sammála um einfaldar staðreyndir.

Miðaldra húsmæður munu spyrja daglega á Facebook um opnunartíma Costco.

Eyþór Arnalds mun ekki komast nær því að skilja hvað „Borgarlína“ þýðir.

Ásmundur Svifryksson stendur áfram í þeirri meiningu að hann geri gagn á þingi þó hans helsta baráttumál verði áfram að þingmenn gangi ekki í gallabuxum.

Á Alþingi verður lagt fram frumvarp sem felur í sér að sala á léttu áfengi verði leyfð í almennum nýlenduvöruverslunum. Þar verður umræðan frá fyrri árum endurtekin með sömu þátttakendum. Frumvarpið verður ekki samþykkt frekar en áður.

Vinsælasta orð stjórnarmeirihlutans verður „svigrúm“, gjarnan með orðinu „ekki“ á undan. Á samfélagsmiðlum verður orðið „njóta“ áfram vinsælast en frasinn „fallega frænka mín“ mun áfram verða algengastur þegar konur skipta um prófílmynd.

Veðurfræðingum verður bannað að flytja alvöru veðurfréttir fyrir Verslunarmannahelgina. Í staðinn þurfa þeir að spá nákvæmlega eins veðri um allt land. Í Eyjum verður alveg sérstaklega hlutlaust og nákvæmlega eins veður. Þar verður engum nauðgað, allavega ekki svo alvarlega að það sé fréttnæmt, fyrr en eftir á.

Í desember kemur upp umræða um ferðir skólabarna í kirkjur á skólatíma og mun sama fólkið tefla fram sömu röksemdunum og rökleysunum og það hefur gert á hverju ári síðastliðinn áratug eða svo.

Í lok desember verður svo flugeldaslys á Skólavörðuholti þegar stór flugeldur springur á jörðu niðri, rétt eins og á hverju ári.

Að sjálfsögðu taka landsmenn það ekki í mál að draga úr flugeldageðveikinni, enda myndi það óhjákvæmilega leiða til breytinga.

Þar hafið þið það. Allt verður nákvæmlega eins.

Gleðilegt eins ár!


Ritstjórn Gys.is er orðin svo þreytt á að skrifa nýjar fréttir um sömu hlutina að hún hefur ákveðið að engar nýjar fréttir verði skrifaðar á árinu 2019.

Í staðinn munum við endurnýta fréttir, rétt eins og þeir sem fréttirnar eru skrifaðar um endurnýta sig.


Eldhúsdagsdansinn


Fara efst á síðu