Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Stefnan er skýr. En afar breytilegt eftir því hversu stutt er til næstu kosninga.


Er orðinn leiður á að láta blekkja sig En ræður varla við sig


Ragnar Róbertsson var dæmigerður kjósandi. Hann fylgdist lítið sem ekkert með stjórnmálum, skildi tæplega muninn á hægri og vinstri, og kaus alltaf Sjálfstæðisflokkinn. (Nema í fyrra þegar hann ætlaði að kjósa Bjarta framtíð og kaus þess vegna óvart Framsókn).

Gys.is fékk Ragnar í innilegt og einlægt helgarviðtal á þessum fallega miðvikudegi, þar sem hann ræðir á opinskáan hátt um líf sitt og nýja sýn hans á það, eftir að hann reif höfuðið upp úr sandinum, og opnaði augun. Augu sem aldrei höfðu reynt að sjá sannleikann, sem þó er alltumlykjandi.


Tvífari og alnafni Jóns Kalmans Stefánssonar tók að sér fyrir hönd Gys.is að hitta Ragnar í þeim tilgangi að forvitnast um hagi hans, gjörbreyttar skoðanir, og afstöðu hans til atkvæða- og rjúpnaveiða.

Tvífarinn skrifar:

Ég hafði mælt mér mót við hinn nýupplýsta kjósanda á kaffihúsi við tjörnina. Tjörnina, sem endurspeglar svo vel tilveru stjórnmálanna. Hún er djúp, köld og dimm.

Ég yfirgef kalt og stillt haustloftið, lýk upp dyrum kaffihússins, og dreg djúpt að mér andann.

Seiðandi ilmur af mjólkurblönduðum kaffidrykkjum umlykur vitin. Gestirnir hafa flestir fjarrænt yfirbragð, eins og þeir séu staddir á skeri fjarri heimahögum, og finni ekki það sem hjarta þeirra þráir. Eins og þeir viti ekki hvers þeir leita, en viti þó að eitthvað vanti. Eitthvað til að fylla í tómarúmið sem vill gleypa ráðvillta sálu þeirra.

Í fjarska heyrast kosningaslagorð glymja á gangandi vegfarendum, eins og ljósgeisli sem leitar uppruna síns. Eða hungruð kosningamaskína sem aldrei fær nóg af atkvæðum.

Þráir að finna fleiri atkvæði. Eitt atkvæði enn. Og eitt enn. Fær aldrei nóg.

Ég panta mér nýbakaðar kosningavöflur, með róttækum rjóma og loforðasultu.

Í hálfmyrkvuðum bás bíður Ragnar, rólegur að sjá. 

Hann er niðurlútur og fölur. Í fyrstu held ég einna helst að hann sé sofandi, eða dáleiddur í dansandi hringiðu dagdrauma sinna.

En svo reynist ekki vera. Hann segist eingöngu hafa verið hugsi yfir komandi kosningum.

Rödd Ragnars er hrjúf sem tunga kattarins. Hann talar lágt, og grúfir sig ofan í sjóðheitan kaffibollann. Kaffibolla með mynd af Múmínsnáðanum og Bjarna Ben, í innilegum og órjúfanlegum ástarbríma.

Flokkurinn svífst einskis, og reynir að höfða til allra. Meira að segja saklausra aðdáaenda Múmínálfanna.

Ragnar lýsir því hvernig hann hefur árum og áratugum saman látið blekkja sig til þess að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig foreldrar hans létu blekkjast á sama hátt. Börn hans. Hvernig börn barna hans munu festast í sama fari. Allir. Íslenska þjóðin í heild sinni.

Hann segist hafa reynt að leita sér hjálpar, en alls staðar hafi hann komið að luktum dyrum.

„Þessi Sjálfstæðismafía hefur kerfisbundið útrýmt öllum úrræðum sem kjósendur hafa til að leita á önnur mið“, útskýrir Ragnar, og átakanlegt vonleysið skín úr svip hans.

„Það er snúið út úr fyrir öðrum flokkum, og allt rang- og oftúlkað. Allt gert til að fullnægja óseðjanlegum þörfum valdsins til að viðhalda sjálfu sér. Að lokum endar flokkurinn alltaf í stjórn, sama hvernig kosningar fara“.

Ragnar brestur í grát. Djúp ekkasogin kallast á við sjónvarpið á bak við afgreiðsluborðið, þar sem prinsinn af Panama dregur áhorfendur inn í hliðstæða draumaveröld.

Draumaveröld þar sem öllu er snúið á hvolf. Vont er gott, upp er niður, blátt er rautt. Hægri er miðja, og vinstrið er hættulegt.

Prinsinn spókar sig í íslenskri náttúru, með góðlátlegt bros á vör. Klæðnaður hans listilega valinn til að mynda órjúfanlega samfellu með haustlitunum. Hann lofar. Lofar því sem kjósendur vilja heyra. Lofar að gera betur en allir aðrir, lofar að allt verði undursamlegt.

Bara ef hann heldur völdum.

Hann útskýrir fyrir áhorfendum að í raun sé Sjálfstæðisflokkurinn velmeinandi félagshyggjuflokkur. Flokkur sem svo sannarlega hafi hagsmuni þeirra sem minnst mega sín að leiðarljósi.

En líka hinna. Allra hinna. Sjálfstæðisflokkurinn er bestur. Bestur fyrir alla.

Hann útskýrir að í raun séu engir aðrir valkostir í kosningunum. Ekkert val, enginn kostur, nema hann sjálfur.

Hvernig allt fari til andskotans á augabragði ef kjósendur greiði honum ekki atkvæði sitt.

Með rólegri og seiðandi röddu dregur prinsinn áhorfendur inn í tilbúna veröld sína, einn af öðrum. Veröld þar sem allir borða kökur í öll mál. Fagurlega skreyttar kökur.

Þrek þeirra sem á hlýða til að veita viðnám, þverrar með hverju loforðinu, uns þeir gefa sig prinsinum á vald.

Það sama gildir um Ragnar, sem virðist smám saman róast við stanslausan nið loforðastraumsins. Grátur hans minnkar, og gufar að lokum upp. Eins og vonin. Vonin um betri stjórn, réttlátara samfélag. Vonin um minni spillingu og meira lýðræði.

Hin veika von sem ætíð kviknar í aðdraganda kosninga, en lognast svo út af á kosninganótt, og deyr drottni sínum, eins og fiðrildi að hausti.

Vonin.

Vonin deyr á kosninganótt.


„Löggulíf“


Fara efst á síðu