Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Ragnar á góðri vælustund


Vældi yfir sig Liggur þungt haldinn heima hjá sér


Ragnar Róbertsson lenti nýlega í þeirri hörmulegu lífsreynslu að væla yfir sig.

Ragnar hefur áralanga reynslu af væli, og því kom þetta honum algjörlega í opna skjöldu.


„Síðustu árin hef ég vælt mest yfir verðtryggingunni, kvótakerfinu og Framsóknarflokknum“, segir Ragnar.

„En ég hef líka tekið syrpur í öðrum málum, og hef t.a.m. vælt ansi mikið yfir heilbrigðiskerfinu síðustu vikur og mánuði.

Núna um helgina ætlaði ég svo að væla samtímis undan Vigdísi Hauksdóttur, niðurskurðinum á Ríkisútvarpinu, og hörmulegu tapi Tottenham.

En þá var bara eins og vælubeinið gæfi sig. Ég bara lyppaðist niður og kom ekki upp neinu væli. Ég reyndi þá að vola, en það gekk ekki heldur.

Á þessum tímapunkti var ég orðinn nokkuð áhyggjufullur, svo ég bað frúna um að hringja á vælubílinn. En þeir voru þá allir uppteknir við að sinna Brynjari Níelssyni, sem fékk alvarlegt vælukast, þegar honum var sagt að bankamenn ættu að fara að lögum, rétt eins og aðrir.“

Ragnar hefur því ekkert getað vælt í tæpan sólarhring, og segist vera kominn með nokkur fráhvarfseinkenni.

„Já, já, það er ekki laust við að maður sé í fráhvarfi. Ég hef getað slegið á verstu skjálftahrinurnar með því að lesa bloggsíður. Sérstaklega bloggið hans Eiðs Guðnasonar.“

Ragnar vonast þó til að geta farið að væla aftur síðar í dag.

„Það er allavega enginn skortur á hlutum til að væla yfir. Ég reyni bara að vera bjartsýnn á að ég geti orðið svartsýnn aftur“, segir Ragnar að lokum.


Herrann í Hádegismóum...


Fara efst á síðu